Markaðsátak í ferðaþjónustu 2020 var meðal þess sem rætt var á bæjarráðsfundi í dag
Vestmannaeyjabær gerði á dögunum samning við Ferðamálasamtök Vestmannaeyja um sérstakt markaðsátak í feðaþjónustu skv. tilboði auglýsingastofunnar Hvíta hússins, um hönnun, gerð og framkvæmd átaksins og birtingaáætlun auglýsinga og upplýsinga um Vestmannaeyjar í hinum ýmsu miðlum.
Snertiskjám verður komið fyrir víða um eyjuna og þjóna hlutverki upplýsingamiðstöðvar fyrir ferðamenn
Átakið er langt komið og m.a. búið að opna nýja vefsíðu visitvestmannaeyjar.is. Þar að auki samþykkti Vestmannaeyjabær að veita Ferðamálasamtökunum styrk til kaupa á sérstökum snertiskjám sem komið verði fyrir víða um eyjuna og þjóna hlutverki upplýsingamiðstöðvar fyrir ferðamenn. Um er að ræða nýjung í miðlun upplýsinga fyrir ferðamenn sem heimsækja Vestmannaeyjar. Er hugmyndin að koma fyrir um 10 snertiskjáum á fjölfarna staði og merkja þá vel.
Forsíðumynd: Heiðar Egilsson