10. bekkur útskrifaðist við hátíðlega athöfn í gær

Það er stór áfangi að útskrifast úr Grunnskóla, það voru kátir krakkar sem tóku við viðurkenningum, árbókum og einkunnum.

Hér eru niðurstöður dómnefndar hvaða lokaverkefni stóður fram úr. En við getum lofað ykkur því að það hefur verið erfitt að finna út úr þessu þar sem þau voru öll stórkostleg.

Besta verkefnið

Hver eru langvarandi áhrif eldgossins á Heimaey árið 1973 fyrir fólkið sem bjó í Vestmannaeyjum þegar gaus?: Hrafnhildur Ýr Steinsdóttir og Helga Björt Alfreðsdóttir

Besta kynningin

Hver er mismunur milli kynja í fótbolta?: Embla Harðardóttir, Rakel Perla Gústafsdóttir og Sara Sindradóttir.

Besta heimasíðan

Hvernig sameinar tónlist fólk?: Kristján Ólafur V. Hilmarsson, Friðrik Máni Guðmundsson og Gísli Freyr Jónsson

Frumlegasta verkefnið

Hver er munurinn á því að koma út úr skápnum í litlu eða stóru bæjarfélagi?: Herdís Eiríksdóttir, Íva Brá Guðmundsdóttir, Berta Ómarsdóttir og Margrét Helgadóttir

Flottasti básinn

Hvernig hafa orkuskipti bílaflotans verið á Íslandi á þessari öld?: Bergur Óli Guðnason, Hafsteinn Ingi Logason, Ingimar Óli Arnarsson.

Viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur í námi.

Hrafnhildur Ýr Steinsdóttir fékk verðlaun fyrir afburðar árangur í námi. Hrafnhildur Ýr er með framúrskarandi árangur í öllum greinum og útskrifast með A í þeim öllum. Hún fékk verðlaun fyrir allar bóklegar greinar auk textílmennt.

Hrafnhildur Ýr

Jason Stefánsson fékk verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í íslensku og ensku.

Á hverju ári eru veitt verðlaun til þeirra nemenda sem sýnt hafa miklar framfarir í námi og er það Karen Tryggvadóttir sem gefur þessi verðlaun í minningu Sigurlásar Þorleifssonar

Helga Björt Alfreðsdóttir, Hjalti Jónasson, Kristján Ólafur V. Hilmarsson og Valdís Bylgja Elvarsdóttir hlutu viðurkenningu fyrir framfarir í námi.

Að lokum voru veitt verðlaun fyrir félagsstörf og fékk Edward Jón Þórarinsson viðurkenningu fyrir að vera einstaklega liðlegur í félagsstörfum, hann sat í skólaráði fyrir hönd nemenda, var formaður nemendaráðs og svo má hrósa honum fyrir það hversu vel hann tók á móti og aðstoðaði Egor þegar hann kom til okkar og í raun alltaf boðinn og búinn til að aðstoða.

Til hamingju krakkar með frábæran árangur.

Anna Rós skólastjóri talaði í síðasta sinn til krakkana, gaf þeim góð ráð og þakkaði þeim fyrir samveruna.

Hér er ræðan hennar: 

Kæru útskriftarnemar þá er komið að kveðjustund. Stund sem mörg ykkar hafa beðið eftir mjög lengi. Þið hafið þroskast mikið á síðustu árum og tíminn með ykkur í skólanum verið í senn skemmtilegur og stundum ansi krefjandi

Innan hópsins er mikill fjölbreytileiki sem kom vel fram í lokaverkefnunum ykkar og það er eins og áður sagði alltaf gaman að fylgjast með ykkur í þeirri vinnu og sjá hvað áhugasvið og áhugamál ykkar eru fjölbreytt og áhugaverð.
Þið eruð öflugur hópur sem gerir kröfur á aðra og ekki síst á ykkur sjálf, þið sitjið ekki á skoðunum ykkar, óhrædd við að ræða málin ef þið eruð ósátt og og látið taka eftir ykkur, þess vegna er ég handviss um að þið eigið eftir að standa ykkur vel í því sem þið takið ykkur fyrir hendur í framtíðinni.

Það má segja að ykkar skólaganga síðustu ár, í raun öll ykkar ár á unglingastigi hafi einkennst af skrítnum tímum, heimsfaraldri sem hefur sett stórt strik í skólagönguna. Eftir sjö ár af nokkuð hefðbundinni skólagöngu þurftuð þið að aðlaga ykkur að nýjum áskorunum síðustu þrjú skólaárin ykkar.
Þið hafið farið í gegnum fjarkennslu og heimakennslu, þið hafið verið í alskonar útgáfum af skólahaldi, með hinum ýmsu takmörkunum, þurft að sitja í kennslustundum með grímu sem ekki var örugglega ekki auðvelt. Sumar vikur vantaði marga nemendur vegna sóttkvíar eða einangrunar og nokkrum sinnum lentuð þið í að allur árgangurinn var heima í einhverja daga vegna sóttkvíar. Lítið hefur verið um félagslíf tengt skólanum undanfarin ár vegna ástandsins. En þið fenguð að klára skólaárið með hefðbundnum hætti, fóruð í að mér skilst virkilega skemmtilegt skólaferðalag, árshátíðin og smiðjudagar voru á sínum stað og svo lokaverkefnið sem má segja að sé yfirleitt hápunktur skólaársins í 10. bekk.
Þið hafið eins og aðrir nemendur skólans tekist á við þetta verkefni með ótrúlegri jákvæðni og dugnaði, flestir lögðu hart að sér við að halda sínu striki í náminu og gera sitt besta, ykkur og foreldrum ykkar ber að hrósa fyrir það.

Nú hafið þið lokið þessum áfanga að klára Grunnskólann sem er vonandi bara eitt lítið skref á ykkar skólagöngu. Skólagöngu sem þið hafið kannski lítið haft með að segja en nú er komið að ykkur, nú þurfið þið að taka ykkar eigin ákvarðanir um hvert þið viljið stefna eða hvað leið þið ætlið að fara í lífinu.

Mörg ykkar hafa nú þegar ákveðið hver næstu skref verða í ykkar lífi. Flestir hafa eflaust ákveðið að halda áfram í skóla og þá búnir að ákveða í hvaða skóla þeir ætla en aðrir eru óákveðnir. Það skiptir ekki endilega máli hvaða skóla þið veljið að fara í, heldur er þetta í ykkar höndum, hvar hæfileikar ykkar og áhugasvið liggja og hvað maður er tilbúinn að leggja á sig til að ná settu markmiði. Ef ég á að gefa ykkur skilaboð út í framtíðina þá myndi ég segja ykkur að vera trú sjálfum ykkur og þorið að vera þið sjálf. Eltið ykkar eigin drauma og munið að það er í lagi að gera mistök svo framarlega sem þið lærið af þeim.

 

Auglýsingar í blaðið

Skil á auglýsingum er í hádeginu á mánudögum.  Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:

  • Heilsíða 170 x 240 mm + 3 mm blæðing 
  • Hálfsíða 170 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Kvartsíða 84 x 120 mm + 3 mm blæðing
  • Renningur 170 x 60 mm + 3 mm blæðing
  • Kubbur 84 x 59 mm + 3 mm blæðing
 
Hafðu samband fyrir verð tigull@tigull.is eða í síma 856-4250

Auglýsingar á vefinn

Auglýsingar sendist á tigull@tigull.is Stærðirnar eru:
  • Stór banner – þver yfir síðuna 1018 x 360 px
  • Auglýsing hægra megin 310 x 400 px
Hægt er að skoða aðrar stærðir – endilega sendið okkur póst á tigull@tigull.is
Search